November 20, 2021
Iceland

Íbúar á Úthéraði óttast sjónmengun og örplast

Rúnar Snær Reynisson | Fréttastofa RÚV | 19.11.2021 | www.ruv.is

Íbúar á Úthéraði óttast bæði sjón- og örplastmengum frá vindmyllum sem Orkusalan áformar að reisa við Lagarfossvirkjun. Stuðningsmenn segja mikilvægt að framleiða græna orku.

Orkusalan hefur fengið leyfi fyrir 50 metra háu tilraunamastri til að meta vindorku við Lagarfossvirkjun á svokölluðu Úthéraði. Það er svæðið frá Héraðsflóa inn í átt að Egilsstöðum. Fyrirtækið áformar að reisa þar tvær 150-160 metra háar vindmyllur sem gætu framleitt tæp 10 megavött af raforku. Fulltrúar Miðflokks og VG í sveitarstjórn Múlaþings voru á móti því að veita leyfið en fulltrúar Austurlista, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks studdu málið.

Fulltrúi Miðflokks fullyrti að vindorka væri ótrygg og ekki jafn græn á fullyrt væri. Orkusalan væri með rannsóknarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir á svæðinu upp á samtals 140 megavött sem nær væri að horfa til. Fulltrúi VG sagði mjög lítinn fjárhagslegan ávinning af vindmyllunum og hann ásamt fulltrúa Miðflokks lögðu fram bókun um að réttara væri að meta fyrst hvar vindorkuver eigi heima í sveitarfélaginu.

Í aðsendri grein á Austurfrétt lýsir Þorsteinn Gústafsson, sem selur hestaferðir á svæðinu frá Geirastöðum, miklum efasemdum. Hann vísar í norska og skoska rannsókn þar sem kemur fram að spaðar á einni vindmyllu losi og dreifi 62 kílóum af örplasti á ári. Trefjaplastögnum sem kvarnist úr brúnum spaðanna með efninu PBA. Það sé þrávirkt eiturefni sem safnist upp í náttúrunni, dýrum og mönnum. Þá sé sjónmengunin stórmál enda myndu vindmyllurnar sjást um nær allt Úthérað.

Fulltrúar meirihlutans í sveitarstjórn Múlaþings auk fulltrúa Austurlistans sjá hins vegar ýmsa kosti við að nýta vindorku á svæðinu. Sveitarfélaginu beri að leggja sitt af mörkum til orkuskipta til að Íslendingar dragi úr losun. Breyta þarf aðalskipulagi til að heimila vindmyllurnar og því þurfa áformin mögulega í umhverfismat.


URL to article:  https://www.wind-watch.org/news/2021/11/20/ibuar-a-utheradi-ottast-sjonmengun-og-orplast/